sunnudagur, 4. maí 2014

Byrjendalæsi - Kennsluáætlun - Vinir Afríku


 




Vinir Afríku - smábók
Höfundur Gerður Kristný





Kennsluáætlun fyrir 2. bekk
Elín Berglind Skúladóttir – Grenivíkurskóla 2013

Markmið

Þjálfa lestur (leshraða og lesskilning)
Efla orðaforða
Gera samanburð – nota venkort
Vinna með orðin í sögunni
Skrifa lýsingu við mynd úr sögunni.

Heimavinna

Nemendur fara með bókina heim og æfa leshraða. Lesa bókina einu sinni yfir og velja svo 2-4 bls. þar sem þeir lesa hverja bls. nokkrum sinnum og æfa leshraða, notað klukku með vísi eða tímatöku úr farsíma sem dæmi.

Námsmat

Nemendur vinna verkefni í verkefna- og úrklippubók, vinna sjálfsmat og kennari er með matslista til að merkja við framfarir og vinnusemi nemenda.



Lestur
Nemendur lesa bókina heima, lesa bókina einu sinni og svo velja þeir 2-4 bls. til að æfa leshraða. Nemendur lesa lýsingu sína á mynd úr sögunni.

Hlustun
Lesið bókina fyrir nemendur tvisvar sinnum. Í kjölfarið eru umræður og útskýringar á orðum og orðatiltækjum. Nemendur hlusta einnig á hvort annað lesa upp lýsingu á mynd.

Tal
Nemendur taka þátt í umræðum um orð og orðatiltæki. Nemendur taka þátt í umræðum um samanburð á flóamarkaði – tombólu og Íslandi – Afríku. Nemendur lesa upp fyrir bekkinn lýsingu á mynd.

Ritun
Nemendur vinna saman að ritun við venkorti í samanburði, skrifa svo sjálfir á blað til að setja í verkefna- og úrklippubók. Nemendur rita sjálfstætt lýsingu á mynd sem þeim var úthlutað úr sögunni. Nemendur rita sjálfsmat í lokin.


 _______________________________________________________________________________
 Lota 1

Bókin lesin tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið er hún les yfir í heild. Í seinna skiptið er rætt um innihald bókarinnar um hvað hún fjallar. Þá eru orðin í bókinni skoðuð og merking þeirra. Rætt aðeins um fleiri hjálparsamtök sem aðstoða bágstadda, RKÍ, ABC-barnahjálp, Unicef.

Orð til að vinna með:
Fátækt
Flóamarkaður
Safaríferð
Ris
Tombóla
Ódýrt
Blettinn (raka blettinn)
Bókaormur
Rogast
Rauði kross Íslands

Lota 2
Unnið með lykilorðið flóamarkaður
Reynt að ná sem flestum orðum í orði og orð úr orði.

Lota 3 – 6
Borið saman orðin flóamarkaður og tombóla og Ísland og Afríku með venkorti. Allir vinna saman á töflu og skrifa svo á blað til að líma í verkefna- og úrklippubók.

Lota 7 – 8
Nemendur búa til spurningar úr bókinni. Hver og einn fær úthlutað blaðsíðum sem hann á að lesa í bókinni og á svo að búa til nýjar spurningar úr textanum. Svo leggja nemendur verkefnin fyrir hvorn annan. Límt í verkefna- og úrklippubók að loknu verkefni.

Lota 9 – 10
Nemendur fá ljósritaða mynd úr bókinni og eiga að skrifa hvað sé að gerast á myndinni. Límt í verkefna- og úrklippubók. Nemendur lesa upp lýsinguna sína fyrir allan bekkinn. Kennari stýrir þannig að söguþráðurinn í bókinni komi fram í réttri röð hjá nemendum.

Nemendur vinna sjálfsmat, þar sem þeir skrifa hvað gekk vel og hvað gekk illa og líma í verkefna- og úrklippubók. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli